Rétt eins og hver annar hópur ólíkra könnuða hafa vísindamenn í HiRISE teyminu og almenningur,
sem sendir inn tillögur um myndefni, mismunandi áhuga á og markmið með myndum af Mars. Oftar en ekki endar mynd, sem tekin var til að uppfylla tiltekið vísindalegt markmið, á því að svara ýmsum spurningum en vekja líka upp nýjar.
Þessi mynd var tekin til þess bera saman við eldri myndir af sama svæði í leit að breytingum á dreifingu dökks sands. Í frumrannsókninni hafa engar breytingar sést, en við höldum áfram að leita.
Í fyrstu var svæðið — sem er gígur innan í Schiaparelli gígnum, sem er stærri —
skoðað til að rannsaka lög sem hafa fyllt upp í gíginn, en þau veita okkur vísbendingar um það hvort setmyndunin hafi verið vegna ryks úr lofti eða jafnvel vatni. Á myndinni sjáum við nokkuð sem verður augljóst ef við þysjum inn að þeim stöðum sem
geyma dökkan sand. Hér liggur sandurinn um það bil
hornrétt ofan á brúnum berglaga sem stefna út frá gígnum.
Uppruni hryggsins er ráðgáta en sandurinn gæti einfaldlega verið að safnast saman við brúnirnar. Þetta bendir til að sumir aðrir stórir skaflar á Mars séu staðir þar sem sandur safnast fyrir vegna aðstæðna í landslaginu. Myndir teknar síðar með HiRISE munu hjálpa okkur að skilja betur umfang slíkra hryggja og samband þeirra við sand annars staðar á reikistjörnunni.
Þýðing:
Sævar Helgi Bragasonnúmer:
ESP_032836_1790dagsetning myndatöku: 29. júlí 2013
hæð yfir sjávarmáli: 268 km
https://uahirise.org/hipod/is/ESP_032836_1790
NASA/JPL-Caltech/University of Arizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska