Tharsis Tholus er ein af litlu dyngjunum á Þarsisbungunni stóru á Mars. Þessi dyngja er að mestu leyti hulin mjög þykku lagi (eða þekju) úr lausu efni. Þetta er líklega sama ryk og finnst út um allt á Mars.
Ryk safnast fyrir á eldfjöllunum háu vegna þess að í þessari hæð er lofthjúpurinn þunnur svo erfitt er að flytja rykið burt eftir að það hefur sest niður eftir hnattræna rykstorma. Aska, sem kom frá eldfjöllunum sjálfum, gæti verið önnur ástæða fyrir mikilli þykkt þekjunnar á þessum slóðum.
Stórir farvegir skera hlíðar Tharsis Tholus, rétt eins og hlíðar annarra dyngja á Mars, til dæmis Arsia Mons og Elysium Mons. Þessir farvegir urðu líklega til á sama hátt og á öðrum eldfjöllum, við rof af völdum rennandi hrauns og hruni eldfjallsins undan eigin þunga. Við getum þó ekki sagt til um það með vissu vegna þykktar þekjunnar.
Á norðurenda myndarinnar sést nokkuð áhugavert. Þar er ryklagið mun þynnra en á hraununum í kringum dyngjuna. Þetta bendir til að (a) hraunin í kring séu mun yngri en dyngjan og (b) að rykþekjan á eldfjöllunum sé forn.
Þýðing:
Sævar Helgi Bragason númer:
ESP_033565_1945dagsetning myndatöku: 23. september 2013
hæð yfir sjávarmáli: 272 km
https://uahirise.org/hipod/is/ESP_033565_1945
NASA/JPL-Caltech/University of Arizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska