HiPOD 09. febrúar 2021 
Hraunflekar með sérkennilega innrauða eiginleika

Hraunflekar með sérkennilega innrauða eiginleika
Á þessari mynd sést hluti af Athabasca Valles flæðibasaltssléttunni, yngsta hrauninu á yfirborði Mars.

Hér eru tveir hraunflekar sem hafa sérkennilega innrauða eiginleika. Á næturnar eru þessi tvö upphleyptu svæði köld en hlý á daginn, samanborið við restina af hrauninu. Yfirborð þar sem hitastig breytist hratt, er sagt hafa „lága varmatregðu“. Berg hefur oftast fremur háa varmatregðu, svo þetta kemur nokkuð á óvart.

Myndin staðfestir tilgátu sem byggðust á eldri myndum af svæðinu, teknum í lægri upplausn. Flekarnir eru úr mjög brotnu hrauni (breksíu) sem hefur sérstaklega hrjúft yfirborð. Alla jafna hefði svo ójafn hraunstafli háa varmatregðu, en á þessum slóðum er hrjúfleikinn gildra fyrir vindborið ryk. Aðeins á þessum flekum er hraunið þakið þykkum stafla af dúnmjúku ryki.

Slíkt ryk er mjög einangrandi, sem þýðir að öll sólarhitunin fer í mjög þunnt lag nærri yfirborðinu. Þar af leiðandi verður rykið tiltölulega hlýtt á daginn en vegna þess að varminn kemst svo grunnt, glatast hann auðveldlega á næturnar. Rykið skýrir þess vegna lága varmatregðu þessara hrauna.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason

númer: ESP_033556_1890
dagsetning myndatöku: 23. september 2013
hæð yfir sjávarmáli: 276 km

https://uahirise.org/hipod/is/ESP_033556_1890
NASA/JPL-Caltech/University of Arizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska

Svarthvítar myndir eru innan við 5 km á breidd, falslitamyndir innan við 1 km.