HiPOD 29. apríl 2021 
Jarðfræðilegur fjölbreytileiki í Mawrth Vallis

Jarðfræðilegur fjölbreytileiki í Mawrth Vallis
Á þessari mynd sést lítill hluti af Mawrth Vallis, eina af mörgum árósum sem liggja norður í Chryse dældina. Þessi forni dalur var eitt sinn á kafi í vatni. Rofafl straumharða vatnsins braut sér leið niður í berglögin fyrir neðan og leiddi í ljós þær fjölbreyttu jarðmyndanir sem við sjáum í dag.

Eitt helsta viðfangsefni jarðfræðirannsókna er að ráða fram úr skipan ýmissa bergmyndana og landslagsþátta. Staðsetning eins landslagsþáttar eða jarðlags yfir öðru, sprungur og misgengi sem kljúfa eitt lag en ekki annað og steindafræðileg ummerki á mismunandi dýpi, segja landmótunar og loftslagssögu svæðisins.

Mjög sprunginn berggrunnur sést hvarvetna og sýnir að bergið undir yfirborðinu hefur gengið í gegnum flókna sögu álags og afmyndunar, eins og tognun, þjöppun og vindingu. Í opnum má einnig sjá dökka og breiða hryggi sem skera sig langar leiðir í gegnum sprunginn berggrunninn og mill ýmissa laga. Þessir hryggir gætu verið það sem jarðfræðingar kalla „bergganga,“ nærri lóðréttar sprungur í bergi sem kvika hefur fyllt upp og storknað svo í dag sést opin æð úr dökku storkubergi.

Berggangarnir gætu tengst svæðum úr dökku og grófu bergi, sennilega storkubergi, sem liggur ofan á ljósleita jarðlaginu. Við rof hefur þetta lag þó horfið að hluta svo í ljós komu fjölbreytt, ljósleit lög undir. Þessi lög sýna hvernig umhverfið var eitt sinn þegar efni, hugsanlega gjóska, finn sandur og ryk, lagðist smám saman úr lofti yfir svæðið eða sem botnfall úr stöðuvatni. Auk þess benda litrófsathuganir til að hér megi finna leir sem á einhvern hátt tengist jarðefnafræðilegri ummyndun steinda, hugsanlega í fljótandi vatni.

Þessar myndanir og ferlin sem mótuðu þær urðu að mestu til áður en flóðin urðu sem surfu Mawrth Vallis. Ferlin móta þó landslagið enn þann dag í dag. Á yfirborðinu eru dökkar sandöldur á víð og dreif, sem og litlar sandbreiður. Þessir landslagþættir segja okkur að vindur heldur áfram að brjóta niður berg og feykja dökkum eldfjallasandi yfir yfirborðið. Ljósleitur jarðvegur liggur líka víða yfir rauðleita rykinu — mjög fínkornóttum bergögnum sem fjúka stöðugt um alla reikistjörnuna. Tilvist þessa jarðvegs segir okkur að bergið heldur áfram að verðast, hæglega þó, fyrir tilverknað bæði efna- og eðlisfræðilegra krafta.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason


númer: ESP_032125_2025
dagsetning myndatöku: 03. júní 2013
hæð yfir sjávarmáli: 285 km

https://uahirise.org/hipod/is/ESP_032125_2025
NASA/JPL-Caltech/UArizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska

twitter  •  tumblr

NASA/JPL-Caltech/UArizona
Svarthvítar myndir eru innan við 5 km á breidd, falslitamyndir innan við 1 km.