HiPOD 27. apríl 2021 
Yfirborð Utopia Planitia

Yfirborð Utopia Planitia
Fljótandi vatn og ís hafa að miklu leyti mótað landslagið á Mars. Hér sjáum við landslagsþætti sem gætu hafa myndast þegar mikið magn íss hvarf úr setlögunum undir yfirborðinu: Tíglamynstur með smáum sprungum og stærri lægðir í laginu eins og hörpudiskar. Þegar sífrerinn hvarf, seig yfirborðið svo sprungur og sár mynduðust í jarðveginum (e. thermokarst).

Ís er venjulega stökkur og ber leikandi þyngd jarðvegsins fyrir ofan. Þegar ís bráðnar eða gufar upp getur lagið fyrir ofan sigið og hrunið og sár myndast þar sem ísinn hvarf. Lögun lægðanna sem myndast þá veita okkur vísbendingar (og búa til spurningar) um uppruna íssins.

Við heppilegar loftslagsaðstæður gæti ís myndast og safnast saman árstíðabundið í sprungum svo til verður nokkurs konar vaxkökumynstur þegar ísríkur jarðvegurinn dregst saman á veturna. Á Jörðinni getur sífreri af þessu tagi myndað „íshryggi“. Sérstakar aðstæður þarf til að ísinn safnist saman og stórir hryggir verði til — hlýtt loftslag og nóg af vatni á yfirborðinu. Þykkt lag úr þiðnum, rökum jarðvegi gerir vatni kleyft að seytla inn um opnar samdráttarsprungur í sífreranum undir. Þegar íshryggirnir hverfa síðan, til dæmis við þurrgufun, myndast djúpar lægðir og til verður vaxkökumynstur.

Á sama hátt hætu hinar lægðirnar, sem minna á hörpudiska, bent til tímabils þegar frosnar tjarnir eða snjóskaflar söfnuðust fyrir í lægðum. Síðar gæti ryk og jarðvegur hafa lagst yfir þennan yfirborðsís. Hver sú sem raunin er, þá er napra og þurra loftslagið sem ríkir á Mars í dag ekki heppilegt að mynda landslag af þessu tagi. Þetta bendir því til hlýrra en samt kalds loftslags í fortíðinni.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason


númer: ESP_032108_2240
dagsetning myndatöku: 02. júní 2013
hæð yfir sjávarmáli: 299 km

https://uahirise.org/hipod/is/ESP_032108_2240
NASA/JPL-Caltech/UArizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska

twitter  •  tumblr

NASA/JPL-Caltech/UArizona
Svarthvítar myndir eru innan við 5 km á breidd, falslitamyndir innan við 1 km.