HiPOD 22. apríl 2021 
Nýtt giljadrag í Terra Sirenum

Nýtt giljadrag í Terra Sirenum
Giljadrög finnast við miðlægar breiddargráður á Mars, sér í lagi á hálendinu á suðurhveli. Venjulega hafa þessar jarðmyndanir hvilftir efst og farveg sem liggur niður frá henni í skriðusvuntu, þar sem efnið sem flust hefur úr hvilftinni er að finna.

Á myndum HiRISE hafa fundist mörg dæmi um virk giljadrög, sennilega af völdum árstíðabundins koldíoxíðhríms (þurrís). Undanfarin ár hefur eitt helsta viðfangsefni HiRISE verið að taka myndir af giljadrögum í leit að breytingum á þeim, þar sem leitast er eftir að skilja yfirborðsferlin sem eru virk í dag.

Svæðið sem hér sést hefur áður verið kannað, eins og sjá má á myndum ESP_020051_1420 og ESP_013115_1420. Með því að bera saman nýjar og eldri myndir sést að nýr og nokkuð stór farvegur hefur myndast einhvern tímann milli nóvember 2010 og maí 2013. Efni sem streymir niður úr hvilftinni hefur brotið sér leið frá gamla farveginum, sorfið nýjan og myndað skriðusvuntu út frá honum.

Myndir eins og þessi sýna að giljadrög verða til í dag. Þótt við getum ekki fundið út á hvaða árstíma þessi atburður varð, sýna myndir frá HiRISE oftar en ekki að virknin er venjulega á veturna, þegar mjög ólíklegt er að fljótandi vatn komi við sögu. Þrátt fyrir líkindin við vatnssorfin gil á Jörðinni er líklegt að koldíoxíð leiki aðalhlutverkið í myndun margra giljadraga á Mars.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason

númer: ESP_032011_1425
dagsetning myndatöku: 25. maí 2013
hæð yfir sjávarmáli: 252 km

https://uahirise.org/hipod/is/ESP_032011_1425
NASA/JPL-Caltech/UArizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska

twitter  •  tumblr

NASA/JPL-Caltech/UArizona
Svarthvítar myndir eru innan við 5 km á breidd, falslitamyndir innan við 1 km.