HiPOD 01. apríl 2021 
Hvernig myndaðist bungan í Gale gígnum?

Hvernig myndaðist bungan í Gale gígnum?
Vísindamenn hafa velt fyrir sér uppruna miðbungunnar í Gale gígnum frá því áður en Curiosity lenti skammt frá henni. Ein tilgátan er sú að stöðuvatn hafi eitt sinn fyllt upp í gíginn og lögin í bungunni hafi myndast þegar set féll úr vatninu niður á botninn.

Önnur tilgáta tengist ryki eða eldfjallaösku sem féll úr lofti og myndaði þannig lögin. Í báðum tilvikum gæti lögin hafa veðrast við jaðrana og myndað miðbunguna.

HiRISE hefur tekið margar myndir með það að markmiði að leysa þessa ráðgátu. Nýlega var birt grein þar sem því var haldið fram að lögin hefðu myndast fyrir tilverknað vinds en ekki vatns. Höfundarnir notuðu þrívíðar myndir HiRISE til að útbúa stafræn hæðarlíkön og mældu síðan halla laganna í jöðrum bungunnar. Lögin halla til hliðanna en eru ekki flöt og lárétt yfir alla bunguna. Líkan þeirra sýnir hvernig vindur gæti hafa myndað lögin með sama halla og við sjáum í bungunni í Gale gígnum, svo stöðuvatn þarf ekki endilega að hafa verið í honum.

Curiosity mun geta prófað þetta líkan. Ef vindar mynduðu og mótuðu bunguna mun Curiosity ekki finna margar vísbendingar um vatnstengd ferli.

Þýðing: Sævar Helgi Bragason


númer: ESP_030880_1750
dagsetning myndatöku: 26. febrúar 2013
hæð yfir sjávarmáli: 269 km

https://uahirise.org/hipod/is/ESP_030880_1750
NASA/JPL-Caltech/UArizona
#Mars #NASA #Icelandic #íslenska

twitter  •  tumblr

NASA/JPL-Caltech/UArizona
Svarthvítar myndir eru innan við 5 km á breidd, falslitamyndir innan við 1 km.